Pantaðu safahreinsun hér!
Látum kroppinn blómstra! Næstu 2 dagar verða erfiðir en ekki óþolandi. Þú átt aldrei að þurfa upplifa hungur. Við erum að telja innihaldsefni, ekki hitaeiningar. Því minna sem maturinn er „unninn“ (þ.e. eldaður) því betra. Þú sníður því hreinsunina að þínum þörfum og þarft að hafa í huga að það sama hentar ekki öllum. Sum hafa margoft farið í detox og ákveðið að losa líkamann við hin ýmsu efni svo sem hveiti, sykur, ger, glúten, koffín og fleira. Þau sem eru vön slíkum hreinsunum geta tekið skrefið lengra en önnur verða að fara rólega til að fara ekki fram úr sér og eiga á hættu að gefast upp.
Kostirnir við slíka hreinsun eru margir, svo sem aukin orka, betri svefn, minni bólgur í líkama, mörg tala um skarpari hugsun, minni liðverki, minni sykurlöngun og svona mætti lengi telja. En þetta gerist ekki á einum degi. Á meðan líkaminn er að losa sig við ýmis efni gætir þú upplifað fremur óskemmtilega stemmingu en það gengur venjulega yfir á fyrstu þremur dögunum. Ég heyri gjarnan fólk segja að eftir fyrstu vikuna sé komið visst jafnvægi og því kjósa jafnvel einhver að halda áfram í nokkra daga eða vikur í viðbót. Önnur gætu ákveðið að hreinsa alltaf einn dag í viku eða þrjá daga í mánuði. En við skulum byrja á tveimur dögum.
Þú gætir mögulega fundið fyrir tómleikatilfinningu, depurð, höfuðverk, þreytu og fleiri einkennum sem við tökumst oft á við með að dæla í okkur sykri, áfengi, nikótíni eða koffíni. Næstu 2 daga ætlar þú ekki að stytta þér leið með slíkum efnum. Það tekur á en þú ert fullkomlega fær um það. Líkami þinn er magnaður og getur gert svo miklu meira en þig órar fyrir. Treystu honum. Líkaminn mun losa sig við þau efni sem eru honum óæskileg, þú þarft bara að standa með honum. Svo er gott að smám saman bæta inn hráefnum til að þú finnir hvað fer vel í þig og hvað ekki.
Jóga, göngur, góðar bækur, sund og líkamsrækt eru góðar leiðir til að takast á við depurð. Eins er gott að svitna vel út, t.d. í gufu, til að flýta fyrir hreinsuninni. Varastu þó að stunda mjög ákafar æfingar í byrjun hreinsunarinnar. Líkaminn á nóg með það sem hann er að ganga í gegnum.
Morgunvenjur: Gott er að hefja hvern dag á einum bolla af soðnu vatni með 1 msk af rifnu engiferi og 1 msk af sítrónusafa.
Mörgum finnst einnig gott að setja 1 msk af lífrænu eplaediki út í vatnsbrúsa og drekka það fyrri part dags. Eplaedikið er vatnslosandi líkt og sítróna og ýtir undir basísk áhrif í kroppnum og ku bæta meltinguna.
Hrósaðu þér um leið og þú leggur út í daginn. Það þarf dugnað og sjálfsaga í að neita sér um morgunkaffið, ristaða brauðið, súkkulaðimolann, gosdrykkina eða hvað það nú er sem þú saknar mest. Þörfin eða hreinlega fíknin sem þú munt upplifa í vissar matvörur eða efni segir ansi mikið til um hversu óhollt viðkomandi efni er í raun.
Sykurlöngun geturðu tæklað á ýmiss konar máta, t.d. með því að dreifa huganum og fara að gera eitthvað sem kallar á óskipta athygli þína eða fá þér bita sem er mjög sætur þó hann innihaldi ekki viðbættan sykur, svo sem döðlur, rúsínur, mangó, bláber eða 1 tsk hnetusmjör á eplaskífu. Það er einnig mjög gott að eiga girnilegt ávaxtasalat í ísskápnum til að grípa í.
Í pokanum þínum eru 6 nýpressaðir safar.
2 grænir: sellerí, agúrka, epli, spínat, sítróna og engifer.
2 rauðir: rauðrófa, epli, engifer og sítróna.
2 appelsínugulir: gulrætur, epli, túrmerik og sítróna.
Gott er að byrja daginn á engifer-tei. Við mælum með að þú drekkir 3 safa á dag, byrjir á þeim græna og endir á þeim appelsínugula. Gott er að fá sér tæra súpu í hádegis eða kvöldmat eða einfalt salat úr grænmeti, ristuðum hnetum, olíuskvettu, fersku kryddi og jafnvel setja 2-3 brytjaðar döðlur út á.
Athugaðu að þessi hreinsun er ekki megrun heldur tilraun til þess að setja athygli á hvað við borðum mikið af unninni matvöru alla daga án þess að veita því athygli. Sykur, litaefni og allskyns aukaefni gera okkur ekki gott. Það er því tilvalið að kæfa sykurpúkann og gefa kroppnum góða næringu.
Það er ekki ólíklegt að þú fáir „þynnkueinkenni“ vegna fráhvarfa frá sykri og/eða koffíni. En það líður hjá. Um að gera að drekka nóg vatn og ekki hika við að borða allt það grænmeti sem þig langar í. Það á enginn að vera að tryllast úr hungri!
Gangi þér sem allra best!