top of page

Mamma þin vill að þú borðir þetta!

Náttúrulega Gott er fjölskyldufyrirtæki stofnað 2020 af Guðbjörgu Birkis Jónsdóttur og dóttur hennar Tobbu Marinós. Tobbu hafði lengi dreymt um að geta keypt mogunkorn handa dóttur sinni sem væri án allra aukaefna og sykurs. Slíkt var ekki auðfundið og alls ekki ef það átti að vera bragðgott líka. Tobba fór því í að þróa granóla sem inniheldur aðeins náttúruleg efni, er stökkt, og bragðgott og hentar öllum í fjölskyldunni. Slag­orð fyr­ir­tæk­is­ins er: Mamma þín vill að þú borðir þetta! „Slag­orðið vís­ar í að allt sem við fram­leiðum hentar yngsta barninu á heimilinu sem var þá 1 árs. Ef hún má ekki borða það mynd­um við mæðgur ekki selja það. Með þessum orðum viljum við miðla þeirri umhyggju sem foreldrar bera til barna sinna og næringin skiptir svo sannarlega sköpum þar.“

Granólað tókst heldur betur vel og fljótt voru vinir og vandamenn farnir að biðja um áfyllingu á krukkur. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir vinkona Tobbu er mikill frumkvöðull og stofnar fyrirtæki fyrir hádegi án þess að blása úr nös. Hún hastaði á Tobbu eftir að hafa smakkað granólað og skipaði henni að koma þessu í verslanir undir eins! Úr varð að Tobba fékk móður sína til liðs við sig, þær keyptu sér svuntur í stíl og fengu lánað tilraunaeldhús Matís en sú hugmynd varð fljótt úreld.

„Við ætluðum bara að framleiða þetta í litlu magni og selja í heilsubúðum en þegar okkur barst pöntun frá Bónus kom í ljós að það þýddi ekkert að dúlla við þetta. Systir mín var flutt heim frá London ásamt kærastanum sínum og öll fjölskyldan eyddi jólunum í nýja iðnaðareldhúsinu okkar með hárnet,“ segir Tobba. Guðbjörg rifjar upp fyrstu mánuði þeirra mæðgna í framleiðslunni árið 2020: „Móðir mín Regína sem er 82 ára var yfirpökkunarstjóri og Marinó pabbi Tobbu skaust út um allan bæ eftir hráefni á meðan við hin bökuðum. Svo mætti vinkonuher Tobbu til að aðstoða við pökkun. Þetta er ótrúlegt fólk sem við eigum að.“ Í dag framleiða þær tvær tegundir af granóla og eru fleiri vörur væntanlegar á árinu. Litla iðnaðareldhúsið varð of lítið á nokkrum mánuðum og það tók þær mæðgur hálft ár að ná að anna eftirspurn. Í dag er granólað handgert í stærsta bakaríi landsins eftir þeirra nákvæmu leiðbeiningum og því möguleiki á að bæta í vöruúrvalið.

TM-GBJ_edited_edited.jpg
bottom of page